Norðurberg
Sími: 555-3484, Netfang: nordurberg(hjá)hafnarfjordur.is
Leikskólastjóri: Anna Borg Harðardóttir
Fjöldi nemenda er 101 og fjöldi starfsmanna er 32
.
Leikskólinn Norðurberg er staðsettur í norðurbæ Hafnarfjarðar og tók til starfa 16. ágúst 1982. Hann er sex deilda leikskóli og í honum geta dvalið 105 börn samtímis og allt að 30 starfsmenn. Leikskólinn starfar samkvæmt lögum um leikskóla frá 2008. Hann er rekinn af Hafnarfjarðarbæ og hefur Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar eftirlit með fag- og rekstrarlegum þáttum hans.
Annirnar í leikskólanum eru fjórar, þ.e. haust, vetur, vor og sumar og tekur starfið mið af þeim. Leikskólinn lokar að jafnaði í fjórar vikur á sumrin vegna sumarleyfa og að auki er hann lokaður í fimm daga yfir skólaárið vegna skipulagsdaga. Gefið er út skóladagatal í upphafi hvers skólaárs þar sem sjá má alla þá viðburði, hefðbundna sem heimatilbúna sem leikskólinn heldur og tekur þátt í yfir skólaárið.
Rauði þráðurinn í starfi leikskólans er umhverfis- og náttúrustefna sem er í sífelldri þróun og endurmati. Árið 2003 fékk leikskólinn Grænfánann, umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um góða umhverfismennt og umhverfisstefnu í skólum. Leikskólinn Norðurberg var fyrsti leikskólinn í landinu til að flagga Grænfánanum og hefur verið í fararbroddi á landsvísu í þessu starfi.