Saga skólans

Leikskólinn Norðurberg tók til starfa 16. ágúst 1982. Fyrsti leikskólastjóri var Oddfríður Steindórsdóttir, síðar leikskólastjóri á Hlíðarenda. Fyrstu árin var leikskólinn tvísetinn, 4 tímar fyrir og 4 tímar eftir hádegi og börin komu með nesti að heiman. Húsið var einlyft timburhús, byggt ofan í gjótu í grónu einbýlis- og raðhúsahverfi. Deildirnar voru tvær, Klettaborg og Birkiból, þar til byggt var við húsið og gamla húsið endurnýjað frá grunni. Það var gert 1. desember árið 2000.Norðurberg varð þá fjögurra deilda leikskóli fyrir allt að 90 börn. Þá breyttist til muna öll aðstaða fyrir starfsemi leikskólans og búa börn og starfsmenn í dag við góða vinnu- og hvíldaraðstöðu.


Vorið 2009 stækkaði leikskólinn þegar nýtt hús bættist við vestan megin við aðalbygginguna, Lundur, með samtals rými fyrir 40 börn í tveimur elstu árgöngunum. Húsið er fallegt timburhús með tveimur stórum leikrýmum, kubbaherbergi, dúkkukrók, listasmiðju, eldhúsi og snyrtiaðstöðu.

Í aðalbyggingunni eru 4 deildar, Tröllagil ( 3-5 ára), Álfasteinn (3-5 ára), Birkiból og Klettaborg (2-3 ára). Þrjár deildir hafa þrjú leikherbergi, geymslu fyrir leikföng og snyrtingu. Á Klettaborg hafa yngstu börnin tvö leikherbergi, leikfangageymslu og snyrtingu.

Listasmiðja og Kastali (salur) eru sameiginleg rými og fær hver deild hvort leikrýmið fyrir sig einn dag, einu sinni í viku. Fimmta daginn eru þau nýtt í vali hjá eldri börnunum. Í húsinu er einnig að finna sérkennsluherbergi (Selið), samtalsherbergi (Gesthúsavör), skrifstofu leikskólastjóra (Einbúi), undirbúningsherbergi starfsmanna (Ráðagerði), endurvinnslukompu, ræstikompu, þurrkherbergi, snyrtingar fyrir starfsmenn, sturtuaðsöðu (Brunnur), þvottahús (Þvottaklettar), eldhús og setustofu (Kaffitár). Aðalbyggingin er samtals 644 fermetrar en Lundur reiknast 250 fm.

Leikskólinn er opinn alla virka daga frá kl. 7:30-17:00. Börnin eru með breytilegan dvalartíma, þ.e. allt frá 5 klukkustundum og upp í 9,5 klukkustundir.

Umhverfi leikskólans er mjög sérstakt. Mikið hraun, klettar og trjágróður eru í lóðinni og hraunkambar og fallegur, ræktaðaður gróður norðan og vestan megin við húsið. Það er stutt að fara og njóta náttúrunnar í sínum fjölbreytileika. Hraunið, mosinn, grasið, hávaxinn trjágróður, hraunbollar eða klettar og að ekki sé minnst á fjöruna, allt er þetta rétt utan við leikskólann. Í Lundi var ákveðið frá upphafi að hafa enga girðingu í kringum leikvöllinn. Því eru börnin nokkuð frjáls ferða sinna inna ákveðinna marka. Það er farið vel yfir með þeim á haustin og yfir skólaárið, hvar þeirra leiksvæði byrjar og endar. Þarna eru börnin að fá gott tækifæri til að bera ábyrgð á sjálfum sér í útivist og virða skýr mörk sem þeim eru sett fyrir og ekki hvað síst að æfa sig að leika á opinni lóð eins og gert er í grunnskóla.

Leikskólinn starfar eftir ársíðunum fjórum, hausti, vetri, vori og sumri og leggur inn verkefni þeim tengdum. Lokað er yfir sumarmánuðina 4-5 vikur í senn og hefur því skólaárið upphaf og endi. Leikskólastarfið hefst í ágúst og lýkur í júní ár hvert. Ennfremur lokar leikskólinn í fimm daga á ári vegna skipulagsdaga og eru þeir auglýstir sérstaklega með mánaðar fyrirvara. Í upphafi hvers skólaárs gefur leikskólinn út leikskóladagatal þar sem hefðbundnir viðburðir leikskólans koma fram og þeir menningarviðburðir sem leikskólinn tekur þátt í. Skóladagatalið má finna á heimsíðu leikskólans.