Brúin
Hafnarfjarðarbær hefur frá og með haustinu 2018 farið af stað með nýja nálgun til að efla stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum bæjarins. Markmiðið er að auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra.
Lögð er áhersla á að veita aukna þjónustu á fyrri stigum. Samvinna fagfólks verður einnig efld á milli fjölskylduþjónustu og fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar.
Aukin þjónusta mun að miklu leyti fara fram í gegnum lausnateymi leik- og grunnskólanna. Í lausnateymum sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskylduþjónustu, sálfræðingum og/eða sérkennslufulltrúa frá fræðslu- og frístundaþjónustu. Hlutverk lausnateyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Í lausnateymi er nám, hegðun, þroski og/eða líðan barns rædd með samþykki foreldra og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barnsins.
Unnið verður eftir þessari nýju nálgun fyrst í stað í sjö leikskólum og þremur grunnskólum. Skólarnir koma til með að taka þátt í þróun þessa nýja vinnulags sem síðar verður innleitt í alla leik- og grunnskóla bæjarins. Þrír starfsmenn hafa verið ráðnir til að tryggja þessu brautargengi, styðja við þróun þess og fylgja eftir mótun nýrra úrræða. Ekki er um tímabundið verkefni að ræða heldur breytt verklag í þjónustu við börn og fjölskyldur hjá Hafnarfjarðarbæ.