Hvað er á bak við matseðilinn?

Norðurberg hefur í stefnu sinni sem umhverfisvænn leikskóli lagt áherslu á að sem mest af lífrænu hráefni sé notað til matargerðar. Nýr fiskur er tvisvar í viku og hollusta og fjölbreytni höfð að leiðarljósi. Hér verður farið yfir helsta hráefni sem verið er að nota í matinn sem eldaður er á Norðurbergi, þar sem matseðillinn eingöngu gefur ekki nákvæmar upplýsingar um það sem börnin ykkar eru að borða. Er þetta liður í því að auka upplýsingaflæði til foreldra og stuðla að jákvæðu samstarfi foreldra og leikskólans.

Fiskur:

Eins og fyrr er getið er allur fiskur sem borðaður er hjá okkur nýr. Hann kemur frá fiskbúðinni Trönuhrauni og er sendur til okkar sama dag og hann er á boðstólum. Oftast er um ýsu að ræða en getur verið þorskur, karfi eða steinbítur. Ekki er tekið fram á matseðlinum hvaða tegund er í boði þar sem við fáum það sem er ferskast og hagstæðast hverju sinni.

Fiskibollur innihalda: fiskhakk, tröllahafra (gróft haframjöl), lauk, hvítlauk og salt

Steiktur fiskur er ofnsteiktur með heimagerðu raspi, hvítlauk og olíu.

Soðinn fisku er alltaf gufusoðin í ofni svo sem minnst af næringarefnum glatast.

Kjöt:

Kjötvörurnar sem eru í boði koma frá Gæðafæði. Slátur og pylsur eru einu unnu kjötvörurnar sem borðaðar eru á Norðurbergi. Pylsurnar eru í boði í sveitaferð eða ferð í Heiðmörk einu sinni á ári.

Í kjötsúpu er notaður lambaframpartur.

Lifrarbuff innihalda: hakkaða lambalifur, rifnar gulrætur eða kúrbít, tröllahafra, lauk, hvítlauk, kartöflur og krydd.

Kjötbollur innihalda: svínahakk, kúrbít eða gulrætur, tröllahafra, hvítlauk og krydd.

Kjúklingur og kjúklingahakk kemur frá Ísfugli og innihalda kjúklingabollurnar það sama og kjötbollurnar fyrir utan hakkið.

Grænmetis- og baunaréttir:

Hinar ýmsu tegundir af baunum eru notaðar hér í matseldina og einnig sem meðlæti. Grænmeti er á boðstólum daglega sem meðlæti og er mikið notað í matseldina. Nánast allt grænmetið sem notað er er ferskt, helst lífrænt eða íslenskt. Frá júlí – nóvember notum við eingöngu lífrænt rótargrænmeti sem við kaupum beint frá bændum á suðurlandi, því miður er það ekki fáanlegt allan ársins hring.

Brokkólí-baunabuff innihalda: linsubaunir, kartöflur, brokkólí, tröllahafra og krydd.

Kjúklingabaunabuff innihalda: kjúklingabaunir, gulrætur, tröllahafra,og krydd.

Grænmetisbuff innihalda: kartöflur, kjúklingabaunir eða linsur, blandað grænmeti, tröllahafra og krydd.

Rauðrófubuff innihalda: rauðrófur, bygg, kartöflur, kjúklingabaunir, tröllahafra og krydd.

Soyahakk inniheldur: soyakjöt (óerfðabreytt), niðursoðna tómata, gulrætur, sellerí, lauk, hvítlauk og krydd.

Grænmetisbaka inniheldur: það grænmeti sem er til hverju sinni, brauð, egg, mjólk, ost og krydd.

Súpur:

Grænmetissúpurnar eru ýmist tómatlagaðar og búnar til úr því grænmeti sem til er hverju sinni og niðursoðnum tómötum, eða eru mauksúpur sem innihalda í grunninn kartöflur og rótargrænmeti

Grautar:

Hafragrauturinn sem er fastur liður tvisvar í viku er alltaf búin til úr tröllahöfrum. Bygggrauturinn er búin til úr lífrænt ræktuðu bankabyggi frá Móður jörð og hefur algjörlega komið í staðin fyrir grjónagraut, enda er um miklu hollari graut að ræða og börnunum finnst hann ekkert verri. Jólagrauturinn er alltaf eingöngu úr grautargrjónum og er þá bara sparilegri fyrir vikið.

Meðlæti:

Það sem boðið er upp á er: kartöflur, hýðisgrjón, heilhveiti pasta og heilhveiti kús-kús. Allt lífrænt ræktað. Kornvörurnar koma frá Kaja-organics. Alltaf eru notaðar þrjár mismunandi tegundir af grænmeti sem meðlæti og þá annað hvort ferskt, gufusoðið eða ofnsteikt. Stundum eru niðursoðnar maísbaunir eða aðrar soðnar baunir s.s. puy-linsur og augnbaunir.

Sósur:

Heitar sósur eru yfirleitt gerðar úr mjólk, vatni, kjúklinga- eða kjötkrafti, kryddi og þykktar með maizenamjöli. Heit tómatsósa er gerð úr niðursoðnum tómötum, mjólk, lauk, hvítlauk, kjúklingakrafti og kryddi. Svo er gamla góða tómatsósan notuð með soðna fisknum.

Brauð og bakkelsi:

Eina brauðið sem er keypt er rúgbrauð og flatkökur. Allt annað brauð er heimabakað. Mikið er notað af grófu korni og fræjum, byggmjöl, rúgmjöl og lífrænt heilmalað hveiti.. Einstöku sinnum er boðið upp á sætabrauð eins og kryddbrauð og kanilsnúða og er þá reynt að auka hollustuna með því að nota gróft korn í þá, baka kökur úr heilhveiti o.þ.h. Pizzurnar hjá okkur eru alltaf úr blöndu af grófu og fínu mjöli.

Álegg:

Ekki er tekið fram á matseðlinum hvaða álegg er í boði dag hvern þar sem misjafnt er hvað til er hverju sinni. Hér er það sem við bjóðum upp á: ost, mysing, ýmsar tegundir af smurosti, lifrarkæfu, kindakæfu, hummus, soðin egg, gúrku, tómata, papriku, banana og epli.