news

Plastlaus september/plastlaus Hafnarfjörður!

02 Sep 2019

Við hvetjum alla forráðamenn og fjölskyldur þeirra til að taka þátt í átakinu "plastpokalaus september". Hér fyrir neðan er góður listi til að minna okkur á að við getum gert heilmargt til að minnka plastneyslu. Það er búið að reikna það út að hver meðalfjölskylda lætur eftir sig 30 kg af plasti á ári hverju. Við getum auðveldlega minnkað þetta magn ef viljinn er fyrir hendi. Við á Norðurbergi ætlum að taka skrefið enn lengra en verið hefur. Á fimmtudaginn verður ekki í boði að fá plastpoka undir óhrein og blaut föt. Á miðvikudaginn tökum við við taupokum frá heimilisfólki Hrafnistu og þeir verða komnir í hólf barnanna á fimmtudaginn. Þessir pokar voru saumaðir úr gömlum gardínum, sængurverum, dúkum og fleira. Pokana fá forráðamenn að láni þann tíma sem barnið gengur í leikskólann.

Hér kemur linkur á umfjöllun Fjarðarpóstsins um taupokaverkefni Norðurbergs og Hrafnistu.

Hvernig minnkum við plastnotkun?

Ýmsar leiðir eru færar þegar kemur að því að nota minna plast. Hér eru aðeins örfá dæmi.

 • Notaðu fjölnota innkaupapoka þegar þú ferð út í búð.
 • Taktu með þér fjölnota kaffibolla eða drekktu kaffið á staðnum í postulíni.
 • Slepptu því að nota plaströr (ef að þér finnst rör ómissandi, notaðu pappa, bambus eða stálrör í staðinn).
 • Slepptu því líka að setja grænmetið í plastpoka (ef þér finnst pokinn nauðsynlegur má kaupa fjölnota poka úr fataefni).
 • Notaðu fjölnota box til að geyma afganga í stað plastpoka.
 • Taktu með þér fjölnota nestisbox á veitingastaði ef ætlunin er að borða matinn annarsstaðar.
 • Prófaðu að nota sápustykki í stað sápu í fljótandi formi! Það er meira að segja hægt að kaupa stykki af hárnæringu og sjampói.
 • Keyptu eyrnapinna sem eru gerðir úr pappa en ekki plasti.
 • Ef þú átt barn, þá getur þú notað fjölnota bleyjur í stað einnota, það er líka ódýrara.
 • Prófaðu að kaupa bambustannbursta.
 • Slepptu því að nota blöðrur og glimmer úr plasti.