news

Plastlaus september!

14 Sep 2020

Plastlaus september minnir okkur á að nota minna af einnota plasti og velja vörur úr öðru hráefni þegar því er komið við. Átakið snýst ekki um að vera fullkomlega plastlaus í september heldur að finna sér markmið í mánuðinum til að minnka neyslu á einnota plastumbúðum. Gríðarlegt magn af einnota plasti er urðað eða endar í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til og eyðist ekki þ.e. það plast sem ekki hefur endað í sorpbrennslu. Plastið brotnar niður í smærri einingar (örplast) og áhrif þess á lífríki er ekki að fullu þekkt.

Við í leikskólanum reynum að nota sem minnst af plasti. Við erum ekki með plastpoka í ruslafötum, við kaupum ekki plastpoka, við bjóðum ykkur foreldrum að láni taupoka undir óhrein föt, við notum fjölnotapoka við innkaup, við veljum leikföng sem eru framleidd úr endurvinnsluplasti, við flokkum allt plast samviskusamlega.

Árið 2015 þá unnum við Grænfánaverkefni þar sem tilgangurinn var að minnkaplast á heimilum okkar allra og tóku foreldrar þátt í verkefninu með okkur. Við mældum meðal plastnotkun á hverja fjölskyldu og voru tölurnar sláandi svo ekki sé meira sagt. Niðurstaðan var sú að hver fjölskylda lætur frá sér 0,08 kg af plasti á dag, á heilu ári 29,2 kg af plasti og við í leikskólanum erum u.þ.b. 135 fjölskyldur og því látum við frá okkur tæplega 4 tonn af plasti á ári! Frekar hrikalega tölur!
En við getum alveg breytt þessu, minnkað magnið með litlum en mikilvægum lífsstílsbreytingum hjá okkur sjálfum.